Íslenski boltinn

Kjartan Henry æfir með Coventry

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry, lengst til hægri, varð Íslands- og bikarmeistari með KR í sumar.
Kjartan Henry, lengst til hægri, varð Íslands- og bikarmeistari með KR í sumar. Mynd/Daníel
Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmaður í KR, er nú staddur í Coventry í Englandi þar sem hann æfir með liðinu til reynslu.

Kjartan Henry fékk símtal í fyrradag og flaug út í gær. Hann æfði svo í morgun og mun gera slíkt hið sama á morgun.

„Coventry er svo að spila á laugardaginn og þeir báðu mig um að horfa á leikinn. Það er svo áætlað að ég fari heim á sunnudaginn," sagði hann í samtali við Vísi í dag en þá var hann nýkominn upp á hótel eftir æfingu.

„Þar sem að það er stutt í næsta leik voru þetta ekki mjög strembnar æfingar en maður reynir að sýna sitt. Framhaldið verður svo að koma í ljós. Þetta var bara tilboð sem mér barst skyndilega og ákvað ég að slá til."

„Ég er þó ekkert örvæntingafullur líður mjög vel á Íslandi og í KR. Ef eitthvað býðst hér mun ég skoða það með opnum huga - ef ekki þá er það líka fínt."

Hermann Hreiðarsson er nýgenginn til liðs við Coventry og spilar mögulega sinn fyrsta leik með liðinu gegn Middlesbrough á laugardaginn. Liðið situr í botnsæti ensku B-deildarinnar og vantar sárlega markaskorara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×