Innlent

Norðurálshetjan fær skaðabætur frá fyrirtækinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Norðurál á Grundartanga.
Norðurál á Grundartanga.
Hæstiréttur viðurkenndi í dag að Norðurál Grundartanga og tryggingarfélagið Sjóvá væri bótaskylt gagnvart Þórarni Birni Steinssyni, sem er fyrrverandi starfsmaður Norðuráls. Þórarinn höfðaði mál eftir að hann slasaðist við það að bjarga samstarfskonu sinni sem hafði lent undir svokallaðri bakskautaklemmu við vinnu. Þórarinn höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Norðuráli og Sjóvá til að fá bótakröfuna viðurkennda. Héraðsdómur viðurkenndi ekki kröfuna en Hæstiréttur er á öðru máli.

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að telja verði að viðbrögð Þórarins, og samstarfsmanns hans sem lyfti undir klemmuna með honum, hafi verið eðlileg við þær aðstæður sem upp voru komnar. Fyrirfram megi gera ráð fyrir að starfsmenn komi samstarfsmönnum, sem verða fyrir slysum, til hjálpar eftir föngum, ekki síst til að aflétta hættu sem að samstarfsmanni steðjar, eins og að losa hann undan fargi.

Hæstiréttur segir að viðbrögð Þórarins og starfsfélaga hans hafi líka verið til þess fallin að draga úr tjóni samstarfsmannsins sem undir farginu lá og voru þau að því leyti í þágu hagsmuna stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. sem vinnuveitanda samstarfsmannsins. Af þessu leiði að tjónið sem áfrýjandi varð fyrir, er hann lyfti hinu þunga fargi, teljist til bótaskyldra afleiðinga af þeirri háttsemi sem fyrr var lýst og talin er valda bótaskyldu stefnda Norðuráls Grundartanga ehf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×