Innlent

Segir að mögulega þurfi að fresta afnámi gjaldeyrishafta

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að mögulega þurfi að fresta afnámi gjaldeyrishafta og samhliða styrkja regluverk Seðlabankans til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Hún tekur undir áhyggjur þverpólitískrar nefndar sem telur óráðlegt að samþykkja nauðasamninga gömlu bankanna.

þverpólitísk nefnd sem fjallaði um afnám gjaldeyrishafta telur óráðlegt að samþykkja nauðasamninga gömlu bankanna en slíkt hefur í för með sér mikið útstreymi gjaldeyris sem veikir krónuna. Nefndin fundaði með formönnum allra flokka á Alþingi nú síðdegis.

Í bréfi sem nefndarmenn sendu formönnunum í gær lýsa þeir yfir áhyggjum af stöðunni og vilja ennfremur tengja afnám gjaldeyrishafta við efnahagsleg skilyrði en ekki ákveðna dagsetningu. Samkvæmt núgildandi lögum á að afnema höftin í árslok 2013.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tekur undir þessar áhyggjur.

„Það er ljóst að það gæti þurft að breyta gildistímanum að því varðar afnám gjaldeyrishaftanna en við erum ekki komin að neinni niðurstöðu í því og síðan gæti þurft að styrkja með einhverjum hætti regluverk seðlabankans," sagði Jóhanna.

Formenn flokkanna ætla að funda með Seðlabankastjóra í næsta mánuði til að fara yfir ábendingar nefndarinnar.

„Menn hafa áhyggjur af því að það eru að renna út um næstu áramót gildistakan á höftunum og menn þurfa að skoða málið í miklu heildstæðara samhengi heldur en bara renna inn í afnám haftanna.

Menn þurfa að skoða uppgjörið á bönkunum sem er í gangi, greiðslujöfnunarstöðu og fleiri þætti þannig að við erum að vinna að því á þeim grundvelli að það verði gerð heildstæð áætlun og plan um það hvernig við getum unnið okkur út úr þessu," sagði Jóhanna að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×