Innlent

Framtíðin er í tölvunum

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Gríðarleg aukning hefur orðið á nemendum í tölvunar- og hugbúnaðarverkfræði. Ríflega tvöfalt fleiri nýnemar eru í haust en fyrir þremur árum. Nemendurnir eru sjálfir sannfærðir um að framtíðin sé í tölvunum.

Síðustu ár hefur því oft verið lýst yfir af forsvarsmönnum atvinnulífsins að skortur sé á tæknimenntuðu fólki. Nú virðist sem að nemendur hafi tekið við sér.

Þannig hófu 122 nemendur nám í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík haustið 2009 en í ár næstum 300. Í Háskóla Íslands voru 65 nýnemar skráðir í BS-nám í tölvunarfræði haustið 2009 en í ár 160. Þá hefur nemendum einnig fjölgað mikið í hugbúnaðarverkfræði.

„Það hefur verið tvöföldun núna á tveimur árum á þeim sem byrja nám hjá okkur og fimmföldun á fimm árum. Þannig að þetta hefur verið mjög mikil aukning," segir Kristján Jónasson, prófessor við Háskóla Íslands.

Þá segir hann ljóst að þeirra sem útskrifast úr náminu bíði störf. Rektor Háskólans í Reykjavík tekur í sama streng og segir mikla eftirspurn eftir fólki með þessa menntun.

„Ég held ég geti fullyrt að allir þeir sem útskrifast héðan með tölvunargráðu þessa dagana eru með störf áður en þeir fá prófskírteini í hendur," segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Hann segir þörfina fyrir tölvunarfræðinga koma til með að vaxa enn frekar á næstu árum.

„Bara svona til að gefa smá hugmynd um hversu mikil þörfin í raun og veru er er að við sjáum ekki að þessi mikla aukning muni komast nálægt því að uppfylla raunverulegu þörfina sem er þarna úti."

Þá eru nemendurnir bjartsýnir á að fá vinnu um leið og þeir ljúka námi og segja tölvunar framtíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×