Steve Clarke er tekinn við stjórnartaumunum hjá enska úrvalsdeildarfélaginu West Bromwich Albion. Clarke skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.
Clarke, sem var síðast aðstoðarstjóri hjá Liverpool, tekur í fyrsta skipti við félagi sem aðalstjóri. Áður hafði hann einnig verið aðstoðarmaður bæði hjá Chelsea og West Ham.
„Ég hef gert allt sem hægt er í stari aðstoðarstjóra. Ég er í skýjunum að fá þetta tækifæri. Ég er þakklátur West Brom fyrir tækifærið að taka þetta skref og ætla að nýta það," sagði Clarke.
Clarke mun starfa með Dan Ashworth, yfirmanni knattspyrnumála hjá félaginu.
„Við höfum tröllatrú á því að Clarke sé rétti maðurinn til að leiða West Brom áfram í uppbygginu sinni. Eftir að Roy (Hodgson) tók við enska landsliðinu höfum við horft gaumgæfilega í kringum okkur til að finna besta manninn í starfið," sagði Ashworth.
