Erlent

Blóðbað í Sýrlandi í morgun

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Uppreisnarmenn í Damaskus
Uppreisnarmenn í Damaskus
Þrettán hið minnsta hafa látið lífið í átökum í Damaskus og Aleppo í Sýrlandi það sem af er degi.

Hörð átök geysuðu þessa nóttina í borgunum tveimur og hefur stjórnarherinn látið sprengjum rigna yfir öll helstu svæði uppreisnarmanna í Aleppo. Uppreisnarmenn börðust við stjórnarliða fyrir framan byggingu ríkissjónvarpsins í borginni í morgun en takmark þeirra var að ná stofnuninni á sitt vald. Þeir hafa nú hörfað frá svæðinu.

Þrettán liggja í valnum eftir átök dagsins, en í gær féllu áttatíu og fjórir víðs vegar um landið, þar af fjörutíu og sex óbreyttir borgarar.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í gær stjórn Assads fyrir að beita þungavopnum á almenning og hefur skorað á öryggisráðið að grípa til aðgerða, en Ísland er á meðal þeirra ríkja sem stóðu að ályktuninni, sem hundrað þrjátíu og þrjú ríki samþykktu. Bæði Rússar og Kínverjar fordæmdu í kjölfar samþykktina en löndin tvö beittu neitunarvaldi sínu í gær ásamt Sýrlandi, Kúbu, Íran, Norður-Kóreu, Hvíta-Rússlandi, Bólivíu, Nígaragua, Búrma, Zimbabwe og Venesúela.

Samkvæmt Mannréttindavakt Sýrlands létust tæplega 4300 í síðasta mánuði hið minnsta þar á meðal 3000 óbreyttir borgarar. Talið er að yfir 20 þúsund hafi fallið frá því að uppreisnin gegn stjórnvöldum í landinu hófst í mars á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×