Innlent

Alþingi neitað um úttekt í fyrsta sinn

Sveinn Arason
Sveinn Arason
ÁSta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ríkisendurskoðun hefur hafnað beiðni Alþingis um að gera úttekt á áætluðum kostnaði, forsendum og fleiri þáttum sem tengjast fyrirhuguðum Vaðlaheiðargöngum. Er þetta í fyrsta sinn sem stofnunin hafnar beiðni frá Alþingi.

Ástæðan er sú að slíkt er ekki lögbundið verkefni stofnunarinnar, auk þess sem Sveinn Arason ríkisendurskoðandi telur sig vanhæfan vegna fjölskyldutengsla sinna við Kristján L. Möller alþingismann, en þeir eru mágar. Kristján er stjórnarmaður í Vaðlaheiðargöngum ehf. og fyrrverandi samgönguráðherra.

Sveinn segir að stofnunin verði að gæta þess að fara ekki út fyrir þann ramma sem tilgreinir lögbundið hlutverk sitt.

„Auðvitað eru markatilvik eins og í öllum málum og þar verðum við að velja og hafna,“ segir hann. „Mál þurfa að vera afgerandi til að við höfnum beiðnum frá forseta Alþingis.“ Sveinn segir að það sem hafi legið bak við beiðnina um Vaðlaheiðargöng hafi verið þannig útfært að augljóst væri að Ríkisendurskoðun gæti ekki framkvæmt úttektina.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir það hafa verið nefnt í forsætisnefnd að þetta gæti orðið niðurstaða ríkisendurskoðanda, en niðurstaðan var að það yrði hans að meta það. Óski þingmenn eftir því að stofnunin geri úttekt á málum sé yfirleitt orðið við því, en allar beiðnir fara í gegnum forsætisnefndina. Upphaflega kom ósk um úttekt frá umhverfis- og samgöngunefnd. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×