Enski boltinn

Daily Mail: Man. United ætlar að kaupa Sneijder í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder.
Wesley Sneijder. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enska blaðið Daily Mail slær því upp í morgun að Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, ætli að kaupa Hollendinginn Wesley Sneijder í sumar og að skoski stjórinn sjái hann fyrir sér sem eftirmann Paul Scholes á Old Trafford.

Sir Alex er tilbúinn að borga 25 milljónir punda fyrir Sneijder en það er upphæðin sem Inter Milan vill fá fyrir leikmanninn. Ferguson er einnig mjög hrifinn af Luka Modric hjá Tottenham en Króatinn er ekki á förum frá White Hart Lane.

Sneijder er 26 ára gamall og er með samning hjá Inter til ársins 2015. Hann var í tvö ár hjá Real Madrid áður en hann fór til Inter sumarið 2009. Það hefur gengið á ýmsu hjá Inter í vetur og samskipti Sneijder og Leonardo hafa ekki verið upp á það besta.

Daily Mail telur sig líka hafa heimildir fyrir því að Manchester United ætli að að reyna að kaupa tvo leikmenn frá portúgalska liðinu Porto, sóknarmanninn Hulk og miðvörðinn Rolando. Þeir gæti kostað saman yfir 46 milljónir punda þar af hefur Porto sett 34 milljón punda verðmiða á Hulk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×