Erlent

Mubarak sagður afar heilsuveill

Hosni Mubarak var forseti Egyptalands í tæp 30 ár.
Hosni Mubarak var forseti Egyptalands í tæp 30 ár. Mynd/AP

Hosni Mubarak sem hrökklaðist frá völdum í Egyptalandi fyrir helgi er sagður afar heilsuveill. Undanfarna daga hafa Mubarak, sem er 82 ára, og vandamenn hans haldið til í egypska strandbænum Sharm-el-Sheikh. Fullyrt er að liðið hafi yfir Mubarak um helgina en hann er sagður vera með krabbamein.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út víðsvegar um Egyptaland á föstudaginn eftir að varaforsetinn Omar Suleiman tilkynnti að Mubarak hefði ákveðið að segja af sér sem forseti.

Um helgina tilkynnti herinn, sem hefur sagst ætla að stjórna landinu næsta hálfa árið uns kosið verði, um að þing Egyptalands yrði leyst upp og stjórnarskráin numin úr gildi. Þetta voru meginkröfur mótmælenda og því finnst flestum að sigurinn sé í höfn. Dagurinn í dag var lýstur opinber frídagur í Egyptalandi en á morgun á allt að vera komið í sitt vanalega horf. Ennfremur er búist við því að herinn muni banna alla fundi verkalýðsfélaga og stjórnmálaflokka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×