Fótbolti

Johan Cruyff kominn aftur til Ajax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Cruyff.
Johan Cruyff. Mynd/AFP
Johan Cruyff er kominn aftur til æskufélags síns í Hollandi og ætlar að reyna að hjálpa Ajax að komast aftur í hóp bestu félaga í Evrópu. Cruyff hefur nefnilega samþykkt að gerast meðlimur í ráðgjafhópi sem mun bjóða stjórn félagsins tæknilega aðstoð.

Johan Cruyff spilaði fyrst með Ajax þegar hann var táningur á sjöunda áratugnum og varð síðan einn allra besti leikmaður sinnar kynslóðar.

Þegar hann yfirgjaf Ajax og fór til Barcelona árið 1973 þá var hann búinn að vinna sex meistaratitla og þrjá Evrópumeistaratitla með Ajax-liðinu frá 1966 til 1973.

Cruyff hóf einnig þjálfaraferil sinn hjá Ajax en hann þjálfaði liðið frá 1985 til 1988 og gerði liðið meðal annars að Evrópumeisturum bikarhafa árið 1987. Cruyff fór síðan aftur til Barcelona þar sem hann sat í þjálfarastólnum frá 1988 til 1996.

Cruyff er talinn vera aðalhugmyndasmiðurinn að leik Barcelona-liðsins í dag en hann hefur verið í kringum Katalóníufélagið allar götur síðan að hætti að þjálfa liðið fyirr fimmtán árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×