Innlent

Ögmundur segir sjálfsagt að ræða EFTA-dómstólinn

Dómararnir Þorgeir Örlygsson, Carl Baudenbacher og Henrik Bull ásamt Skúla Magnússyni dómritara.
Dómararnir Þorgeir Örlygsson, Carl Baudenbacher og Henrik Bull ásamt Skúla Magnússyni dómritara. Mynd/Efta-dómstóllinn
„Auðvitað er það þannig að íslenskir dómstólar og EFTA-dómstóllinn fara með ólík hlutverk,“ segir Skúli Magnússon, dómritari EFTA-dómstólsins. „Íslenskir dómstólar dæma um íslensk lög en EFTA-dómstóllinn fer ásamt Evrópudómstólnum með endanlegt úrskurðarvald um túlkun EES-samningsins. Svo lengi sem Íslendingar vilja vera aðilar að EES-samningnum verða þeir að sætta sig við að íslenskir dómstólar fara ekki með endanlegt úrskurðarvald um efni þessara reglna. Það liggur einfaldlega í eðli alþjóðlegra samninga.“

Skúli segir enga þversögn eða mótsögn fólgna í því að EFTA-dómstóllinn fari með þetta hlutverk og íslenskir dómstólar taki svo við boltanum og framfylgi EES-reglum á Íslandi.

„En einmitt þess vegna er svo mikilvægt að samstarf EFTA-dómstólsins og íslenskra dómstóla sé bæði gott og heilbrigt. Ummæli á borð við þau sem innanríkisráðherra hefur látið frá sér fara virðast benda til að hann átti sig ekki alveg á þessari verkaskiptingu íslenskra dómstóla og EFTA-dómstólsins og átti sig ekki heldur á mikilvægi þess að samstarf milli þessara dómstóla sé gott og heilbrigt.“

Skúli er þar að vísa til þeirra orða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hann líti ekki á EFTA-dómstólinn sem heilaga ritningu í öllum efnum. Ögmundur ítrekar þau orð sín í viðtali við Fréttablaðið.

„Ég minni til dæmis á að þegar þjónustutilskipun Evrópusambandsins var samþykkt fyrir fáeinum árum eftir áralangt tog á milli félagshyggjufólks og frjálshyggjumanna þá fögnuðu báðar fylkingar sigri. Báðar höfðu þær nefnilega fundið syllu til að standa á í málaferlum framtíðarinnar um túlkun tilskipunarinnar,“ segir Ögmundur.

„Að sjálfsögðu er það samt svo að Íslendingar vilja fara að þeim reglum og lögum sem þeir gangast undir hvort sem það er hér á landi eða innan hins evrópska efnahagssvæðis og ef mönnum finnst eitthvað skorta á að mál gangi nógu greiðlega til álitsgjafar hjá dómstólnum, þá er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til að taka þá umræðu,“ segir Ögmundur.

„Hitt er svo annað mál, að ég furða mig á hve stóryrtur forseti EFTA-dómstólsins hefur verið í yfirlýsingum sínum þegar hann gagnrýnir íslenskt réttarkerfi.“ Bæði Carl Baudenbacher, forseti dómstólsins, og Skúli Magnússon dómritari hafa gagnrýnt tregðu íslenskra stjórnvalda til að senda mál til ráðgefandi álits til EFTA-dómstólsins. Skúli segist hins vegar engan veginn átta sig á þessum ásökunum um stóryrði af hálfu EFTA-dómstólsins.

„Í gagnrýni sinni var Baudenbacher fyrst og fremst að vísa til þeirrar stefnu íslenskra stjórnvalda og þá ríkislögmanns sérstaklega að leggjast gegn því að spurningum um túlkun EES-reglna sé vísað af íslenskum dómstólum til EFTA-dómstólsins,“ segir Skúli.

Að auki hafi forseti réttarins vísað til gagnrýni sem hefur komið fram á einstaka dóma Hæstaréttar, þar sem því var hafnað að vísa málum til EFTA-dómstólsins þótt héraðsdómari hafi óskað eftir því. „Þar er hann einfaldlega að vísa til gagnrýni lögfræðinga eins og Davíðs Þórs Björgvinssonar, Elviru Méndez og Páls Hreinssonar.“

Þeir Skúli og Baudenbacher hafa einnig bent á að Ísland sé eina EFTA-landið sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að kæra úrskurði héraðsdómara til æðra dómsvalds. Bæði í Noregi og í Liechtenstein sé dómurum treyst fyrir því að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir telji þörf á túlkun EFTA-dómstólsins í málum, sem þeir þurfa að dæma í.

„Þetta er einmitt einn af þeim þáttum, sem við þyrftum að skoða í þessari umræðu,“ segir Ögmundur, sem fyrir sitt leyti er reiðubúinn að skapa umræðuvettvang um þessi mál.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×