Enski boltinn

Wilshere vill vinna meistaratitil og spila á Ólympíuleikunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jack Wilshere í leik með enska landsliðinu.
Jack Wilshere í leik með enska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
Jack Wilshere segir að það sé draumur sinn að vinna enska meistaratitilinn og fá tækifæri til að spila á Ólympíuleikunum.

Síðarnefnda atriðið ætti að vera auðsótt mál, ef félagslið hans mun ekki standa í vegi fyrir því. Bretland verður gestgjafi á Ólympíuleikunum í Lundúnum á næsta ári og því fær núverandi U-21 landslið Englands sjálfkrafa þátttökurétt á mótinu.

Jack Wilshere er lykilmaður í því liði en óvíst er hvort að hann fái að spila með landsliðinu í úrslitakeppni EM í Danmörku í sumar. Arsene Wenger, stjóri hans hjá Arsenal, er mótfallinn því.

Sjálfur hefur Wilshere marglýst því yfir að hann vilji spila fyrir enska landsliðið, hvar og hvenær sem er.

Arsenal gerði um helgina 1-1 jafntefli við Liverpool og tapaði þar með dýrmætum stigum í titilbaráttunni við topplið Manchester United. Wilshere er þó ekki búinn að gefa titilinn upp á bátinn.

„Við eigum sex bikarúrslitaleiki eftir,“ sagði Wilshere og vísaði þá til mikilvæga þeirra sex leikja sem liðið á eftir í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

„Okkur finnst að við eigum enn möguleika. Við höfum algjöra trú á því. Ef ekki við, hver þá? Við vitum að stjórinn hefur enn trú á þessu,“ sagði Wilshere sem var á dögunum valinn besti ungi leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

„Kannski hafa einhverjir stuðningsmenn misst trúna en þeir hafa samt verið frábærir og stutt okkur í hverri einustu viku. Við viljum endurgjalda það og erum sannfærðir um að Manchester United eigi eftir að tapa stigum.“

„United á enn eftir að koma á Emirates. Ef við vinnum þá þar fylgja kannski önnur slæm úrslit í kjölfarið.“

Wilshere segist einnig hlakka mikið til Ólympíuleikanna í Lundúnum. „Það væri sannkallaður draumur að fá að taka þátt í Ólympíuleikunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×