Enski boltinn

Harry hlær að sögusögnum um Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp segir nákvæmlega ekkert til í því að hann muni taka við liði Chelsea nú í sumar eins og enskir fjölmiðlar hafa verið að gefa í skyn.

Carlo Ancelotti þykir valtur í sessi sem knattspyrnustjóri Chelsea eftir að liðið féll úr leik í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Liðið á þar að auki litla sem enga möguleika á því að verja enska meistaratitilinn í ár.

Redknapp hefur náð frábærum árangri með Tottenham á undanförnum árum og kom liðinu í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð.

„Ég tek í raun ekki eftir svona löguðu. Ég held bara áfram mínu starfi. Þetta eru vangaveltur," sagði Redknapp í samtali við enska fjölmiðla.

„Ég hef aldrei rætt við neinn frá Chelsea. Það hefur enginn komið að máli við mig og sagt að Chelsea hafi áhuga á mér. Ég þarf að sinna mínu starfi hér enda líður mér vel hér og er hamingjusamur."

Redknapp telur að Tottenham gæti orðið efni í meistaralið með örlitlum breytingum á leikmannahópnum.

„Ég hef margsagt að þetta félag þarf ekki mikið til að vinna meistaraititilinn. Betri leikmenn bæta liðið og þurfum við 1-2 slíka til viðbótar til að gera atlögu að titlinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×