Enski boltinn

Van Der Vaart: Slakir gegn verri liðunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Rafael van der Vaart segir að það sé heimskulegt af Tottenham að liðið hafi tapað stigum gegn lakari liðum ensku úrvalsdeildarinnar að undanförnu og að það verði að laga.

Tottenham er komið í fjórðungsúrslit Meistaradeildarinnar og lagði á leið sinni þangað bæði Inter Milan og AC Milan en liðið mætir næst Real Madrid í fjórðungsúrslitum.

„Tottenham er enn að þróast sem lið. Við höfum fengið tvö stig í síðustu þremur leikjum okkar, gegn Blackpool, Wolves og West Ham," sagði van der Vaart við enska fjölmiðla.

„En þetta hefðu átt að vera níu stig og þetta er heimskulegt af okkar hálfu. Okkur gengur vel gegn stóru félögunum en illa með þau litlu. Kannski er þetta síðasta skrefið sem við þurfum að taka."

Van der Vaart var nýverið valinn bestu kaup tímabilsins af knattspyrnustjórum ensku úrvalsdeildarinnar en hann kom til félagsins frá Real Madrid fyrir átta milljónir punda í haust. Hann er aftur orðaður við nokkur stórlið nú.

„Það skiptir mig engu máli. Ég ætla ekki að fara frá þessu félagi eftir aðeins eitt ár. Ég vil vinna titla á hverju einasta ári og ég held að ég geti gert það hjá Tottenham."

„Stjórnarformaður félagsins gaf Martin Jol, fyrrum stjóra liðsins, gamlan Porsche eftir gott gengi liðsins á sínum tíma. Hann hefur ekki gert eitthvað slíkt fyrir okkur en kannski að hann geri það eftir að við vinnum Meistaradeildina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×