Enski boltinn

Grant: Dómaramistök hafa kostað okkur tíu stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Avram Grant, stjóri West Ham.
Avram Grant, stjóri West Ham. Nordic Photos / Getty Images
Avram Grant, knattspyrnustjóri West Ham, segir að mistök dómara í leikjum liðsins á tímabilinu hafi kostað liðið að minnsta kosti tíu stig.

West Ham hefur verið í harðri fallbaráttu lengst af á tíambilinu en liðið er nú með 32 stig í sautjánda sæti deildarinnar. Mikil spenna er í fallbaráttunni í ár en aðeins þrjú stig skilja að neðstu átta liðin.

„Of margar rangar ákvarðanir dómara hafa bitnað á okkur,“ sagði Grant við enska fjölmiðla. „Hefðum við fengið betri dómgæslu værum við með minnst tíu stigum meira.“

„En knattspyrnan í dag er mun hraðari sem gerir starf dómaranna mun erfiðara,“ bætti hann við.

„Þetta er hluti af leiknum - stundum bitnar rangar ákvarðanir á manni. Maður sættir sig við stöku tilvik en of margar hafa bitnað á okkur.“

Nýlega var Alex Ferguson, stjóri Manchester United, dæmdur í fimm leikja bann fyrir að gagnrýna störf dómara.

West Ham mætir einmitt Manchester United í hádegsleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×