Erlent

Sólgos ná til jarðar - trufla fjarskipti og flugumferð

Mynd úr safni

Öflug sólgos ná til jarðar í dag og geta truflað fjarskipti, segulsvið og jafnvel flugumferð. Þá má vænta mikils sjónarspils Norðurljósa vegna sólgosanna.

Bandaríska geimferðastofnunin hefur greint frá óvenju sterkum útfjólubláum geislum frá sólu og varað við seguláhrifum í sólgosi. Síðasta sólgos náði til jarðar fyrir fjórum árum og olli óverulegum truflunum. Árið 1972 brustu símalínur í sólgosi í Illinois í Bandaríkjunum og 1989 rufu sólgos raforkuflutning til sex milljóna manna í Quebec í Kanada.

Ekki er enn vitað hversu öflugur sólstormur núna verður, en segulsvið sólar er fimm þúsund sinnum öflugra en jarðarinnar.

Vegna seguláhrifa í sólgosunum gætu þau truflað raforkuflutning eftir háspennulínum, farsímasamband, GPS staðsetningarkerfið, og jafnvel flugleiðsögutæki í flugvélum, segir í Jótlandspóstinum.

Þrátt fyrir þetta er Fréttastofunni ekki kunnugt um neinn viðbúnað hér á landi vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×