Innlent

Óklárað grunnskólapróf vitjar Katrínar

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur í ráðherratíð sinni glímt við þráláta martröð úr fortíðinni. Þessu greindi Katrín frá á ráðstefnu um kosti og galla sameiningar háskóla á Íslandi.

„Ég get sagt ykkur það, í algjörum trúnaði, sem hér eruð að mig hefur, eftir að ég varð ráðherra, stundum dreymt draum – og hann er mjög óþægilegur,“ hóf Katrín frásögn sína á ráðstefnunni.

Að sögn Katrínar hefst draumurinn á því að hún fær símtal þar sem henni er sagt að hún hafi aldrei lokið grunnskólaprófi. „Og ég segi: Ég trúi því ekki, ég man greinilega eftir að hafa verið í grunnskóla! Og svo semur skólastjórinn við mig í mínum gamla skóla, í Langholtsskóla, um að ég geti lokið prófinu utanskóla – af því að ég segi að ég komist bara alls ekki í tíma því ég sé nefnilega menntamálaráðherra,“ lýsti ráðherra draumnum, sem snerist síðan um það að hún væri að rifja upp þýsku og stærðfræði og fleira.

„Yfirleitt hrekk ég upp í svitakófi og hugsa með mér: Guð minn almáttugur! Hvað fór framhjá mér í grunnskólanum? Hvað veldur því að mig dreymir þennan draum reglulega?“ sagði Katrín og lýsti eftir aðstoð úr salnum til að losna undan martröðinni: „Ef þið eruð miklir Freud-istar megið þið endilega koma til mín og segja mér hvað ég á að gera og við hvern ég á að tala; hvort ég á að tala eitthvað sérstaklega við mömmu eða eitthvað slíkt.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×