Innlent

Fallast á að hætta að spyrja foreldra skólabarna út í fjármálin

Fyrirtækið Skólamatur skráir ekki lengur hvort viðskiptavinir eru í greiðsluaðlögun. Myndin er úr Háteigsskóla, sem er ekki á starfssvæði Skólamatar. Fréttablaðið/Anton
Fyrirtækið Skólamatur skráir ekki lengur hvort viðskiptavinir eru í greiðsluaðlögun. Myndin er úr Háteigsskóla, sem er ekki á starfssvæði Skólamatar. Fréttablaðið/Anton
Fyrirtækið Skólamatur ehf. er hætt að krefjast þess að foreldrar sem kaupa máltíðir fyrir grunnskólabörnin greini frá því ef þeir eru í greiðsluaðlögun. Skilyrðið var tekið út eftir að Persónuvernd fór að kanna málið.

Í skýringum Skólamatar til Persónuverndar kemur fram að sú ályktun hafi verið dregin af samtali við starfsmann umboðsmanns skuldara að nauðsynlegt væri að skrá hvort kaupendur skólamáltíða væru í greiðsluaðlögun. Því hafi verið settur inn sérstakur texti um það fyrir þá sem keyptu mataráskrift á heimasíðu fyrirtækisins. Það var sagt tengjast því álitamáli hvort skólamáltíðir teldust til framfærslu sem fólk í greiðsluaðlögun mætti greiða á meðan svonefndur „frestur“ varaði.

Persónuvernd leitaði til umboðsmanns skuldara, sem sagði þetta misskilning.

„Umboðsmaður skuldara hefur ekki beðið Skólamat ehf. um að safna persónuupplýsingum um þá sem eru í greiðsluaðlögun hjá embættinu,“ sagði umboðsmaður. Stuttu seinna hætti Skólamatur að krefjast upplýsinga um greiðsluaðlögun og Persónuvernd lét þá málið niður falla.

Skólamatur ehf. annast meðal annars skólamáltíðir í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og víða á Suðurnesjum.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×