Innlent

Fjárdráttur í nær 40 tilvikum

Tveir menn voru í gær ákærðir í Kvíabryggjumálinu.
Tveir menn voru í gær ákærðir í Kvíabryggjumálinu.
Fyrrverandi forstöðumaður fangelsisins á Kvíabryggju, Geirmundur Vilhjálmsson, var í gær ákærður af ríkissaksóknara fyrir Héraðsdómi Vesturlands fyrir fjárdrátt í opinberu starfi með því að hafa á árunum 2008 til 2010 misnotað stöðu sína og dregið sér í 39 tilvikum fjármuni í eigu íslenska ríkisins. Jafnframt er honum gefið að sök að hafa reynt að leyna verknaði sínum með því að setja í bókhald fangelsisins níu tilhæfulausa reikninga útgefna af öðrum manni sem rekur smíðaverkstæði. Umræddur maður játaði brot sitt og verður mál hans klofið frá málinu og dæmt sérstaklega, þar sem um játningarmál er að ræða. Geirmundur óskaði hins vegar eftir fresti til að taka afstöðu til ákærunnar.

Í ákærunni eru talin upp tæki og tól sem forstöðumaðurinn fyrrverandi er ákærður fyrir að hafa keypt á kostnað Kvíabryggju. Að miklum hluta er um að ræða varahluti í bíla, en einnig heimilistæki og tæki til smíða. Þá er honum gefið að sök að hafa selt bíl í eigu fangelsisins og hirt andvirðið. Loks að hafa skilað inn ónýtum farsíma við starfslok en haldið eftir nær 60 þúsunda króna síma sem fangelsið átti. Gerð er krafa um að hann endurgreiði íslenska ríkinu tæpar tvær milljónir króna.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×