Innlent

Segir farsíma í fæðingarorlofi jafnréttismál

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
segist eingöngu hafa síma sinn frá borginni opinn fyrir símtöl og sms og "einstaka símtöl frá borgarstarfsmönnum og borgarfulltrúum“.
Fréttablaðið/Stefán
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir segist eingöngu hafa síma sinn frá borginni opinn fyrir símtöl og sms og "einstaka símtöl frá borgarstarfsmönnum og borgarfulltrúum“. Fréttablaðið/Stefán
„Þó að borgarfulltrúi fari í leyfi eða orlof fer hann ekki úr starfi sínu, áfram svarar hann erindum, símtölum, fundum og tölvupósti," segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi.

Þorbjörg spurðist fyrir um það hjá forsætisnefnd borgarinnar hvort breyta mætti reglum um símanotkun þannig að borgarfulltrúar fengju greiddan farsímakostnað í fæðingarorlofi. Því var hafnað á fundi nefndarinnar eins og Fréttablaðið sagði frá í gær. Sjálf er Þorbjörg barnshafandi og í leyfi. Fæðingarorlof hennar er þó ekki hafið eins og sagði í blaðinu.

Þorbjörg segir borgarfulltrúa fá greiddar að hámarki 15 þúsund krónur á mánuði í símakostnað. „Það að borga ekki símakostnað í fæðingarorlofi borgarfulltrúa er því samtals níutíu þúsund krónur að hámarki miðað við sex mánaða orlof," bendir hún á.

Þá segir Þorbjörg að eftir að hún fór í leyfi hafi Vodafone sagst myndu loka númeri hennar nema hún gerði samning við fyrirtækið. „Að loka númeri á borgarfulltrúa á sér ekki fordæmi," segir Þorbjörg sem telur stjórnmálamenn, jafnvel þótt þeir séu óvinsælir, eiga „rétt á sæmilegum kjörum og vinnuaðstöðu".

Að sögn Þorbjargar var símareglunum breytt nýlega en hún óskað endurskoðunar. „Þetta er réttlætismál og jafnréttismál," segir Þorbjörg sem kveður engan sem lesið hafi frétt Fréttablaðsins í gær hafa fengið tilefni til að spyrja hvort eðlilegt sé að sími sé tekinn af kvenborgarfulltrúa sem fari í fæðingarorlof og reglum breytt rétt áður en það gerist. -gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×