Innlent

Hafa áhyggjur af íslenskukennslu

Íslenskukennarar eru uggandi yfir þróuninni í íslenskukennslu kennaranema.
Íslenskukennarar eru uggandi yfir þróuninni í íslenskukennslu kennaranema.
Íslenskukennarar á Hugvísindasviði Háskóla Íslands hvetja til þess að hlutur íslenskunnar í menntun kennara verði aukinn, í samræmi við það sem segir í íslenskri málstefnu. Þar með taka þeir undir gagnrýni íslenskukennara á Menntavísindasviði í þessa veru.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem kennararnir sendu frá sér í gær í tilefni af degi íslenskrar tungu, sem haldinn er í dag.

Í yfirlýsingunni segir að íslenska hafi nánast verið afnumin sem faggrein í skyldunámi kennara. Bent er á að árið 2009 hafi tekið hér gildi íslensk málstefna. „Í málstefnunni er meðal annars sagt að menntun kennara skuli aukin, að lágmarkskrafan verði heils árs nám í íslensku máli, bókmenntum og kennslu íslensku sem annars máls,“ segir í yfirlýsingunni.

Dagur íslenskrar tungu er haldinn í sextánda sinn í dag. Síðastliðin ár hefur sú hefð skapast að mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir í einu ákveðnu sveitarfélagi og hátíðardagskrá er haldin þar. Í ár verður Katrín Jakobsdóttir í Breiðholti í Reykjavík. Hún mun heimsækja skóla í Breiðholti og víðar og opna ISLEX-veforðabókina í Norræna húsinu.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×