Innlent

Frásögnum þolenda kynferðisbrota fjölgar

Sóknarprestur á Ísafirði segir óvenjulegt að fólk leiti til starfsmanna kirkjunnar vegna kynferðisbrota.
Sóknarprestur á Ísafirði segir óvenjulegt að fólk leiti til starfsmanna kirkjunnar vegna kynferðisbrota.
Umræðan um kynferðisbrot innan þjóðkirkjunnar hefur gert það að verkum að fólk sækir í auknum mæli til presta og annarra starfsmanna kirkjunnar vegna kynferðisbrota. Þetta er mat sóknarpresta í Ísafjarðarkirkju og Akureyrarkirkju.

Magnús Erlingsson, sóknarprestur í Ísafjarðarkirkju, segir að frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur af ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi föður síns hafi hjálpað fólki að horfast í augu við fortíð sína og leitað sér hjálpar. Hann segir presta í sóknum í nágrenninu hafa svipaða sögu að segja.

„Hingað til hefur það verið mjög óvenjulegt að fólk leiti til okkar með vandamál sem þessi,“ segir hann. „En þegar verið er að ræða um áföll í samfélaginu þá rifjast þau upp og rifnar ofan af gömlum sárum. Umræðan hefur áhrif.“

Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, tekur undir orð Magnúsar og segir að fólki sem leiti til kirkjunnar með vandamál sín eftir að Guðrún Ebba steig fram, hafi fjölgað.

„Það er enginn vafi á því að það hefur verið aukning í þessu á síðustu árum. Guðrún Ebba og þær konur sem hafa komið fram eiga miklar þakkir skildar,“ segir Svavar og bætir við að hann voni að kirkjan muni bæta sitt kerfi er varðar mál sem þessi og dragi lærdóm af fortíðinni.

„Við eigum von á því að það kerfi sem verður til staðar í kirkjunni, verði til fyrirmyndar,“ segir hann. „Auðvitað voru þessi mál í ólestri hjá okkur.“

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×