Innlent

Merkingum á orkudrykkjum ábótavant

Komur unglinga á bráðamóttökur sjúkrahúsa vegna ofneyslu orkudrykkja eru að færast í aukana. fréttablaðið/valli
Komur unglinga á bráðamóttökur sjúkrahúsa vegna ofneyslu orkudrykkja eru að færast í aukana. fréttablaðið/valli
Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld til að skylda innflytjendur og seljendur orkudrykkja til að hafa merkingar og aðvaranir á umbúðum drykkjanna skýrar og greinilegar. Samtökin voru mjög andvíg því þegar reglum var breytt og sterkir koffíndrykkir og koffínskot tóku að flæða inn á markaðinn, eins og segir í frétt á vef þeirra.

Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að settar verði reglur hér á landi sem skyldi innflytjendur og framleiðendur til að merkja þessa drykki á forsvaranlegan hátt. Ekki sé hægt að sjá að það hefti á nokkurn hátt frjálst flæði vöru eða sé íþyngjandi þótt ríkari krafa sé gerð um varúðarmerkingu á koffíndrykkjum sem ekki séu ætlaðir börnum eða þunguðum konum.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í síðustu viku er komum unglinga á bráðamóttökur vegna of mikillar neyslu orkudrykkja að fjölga. Tveir drengir á unglingsaldri hafa leitað til Barnaspítala Hringsins að undanförnu vegna hjartsláttartruflana, svima og annarra einkenna eftir neyslu á drykkjunum. Annar drengjanna þurfti að gista á spítalanum yfir nótt, þar sem hann sýndi óeðlilegar breytingar í hjartalínuriti. Báðir drengirnir drukku mikið magn af orkudrykkjum en hvorugur þeirra var með aðra undirliggjandi sjúkdóma. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×