Innlent

Unglingar þurfa fleiri rafbækur

Fjórðungur íslenskra ungmenna getur ekki lesið sér til gagns, samkvæmt nýjum könnunum. Fréttablaðið/e.ól.
Fjórðungur íslenskra ungmenna getur ekki lesið sér til gagns, samkvæmt nýjum könnunum. Fréttablaðið/e.ól.
Auka þarf framboð á íslenskum rafbókum fyrir spjaldtölvur í þeirri von að það veki áhuga unglinga á lestri. Þetta segir Íslensk málnefnd í ályktun um stöðu íslenskrar tungu frá því í síðustu viku.

Í ályktuninni er áhyggjum lýst af minnkandi bóklestri og hrakandi lesskilningi íslenskra barna og unglinga. Bent er á að á sama tíma hafi fjárveitingar til skólabókasafna dregist saman, minni tíma sé nú varið til móðurmálskennslu en í grunnskólum annars staðar á Norðurlöndum og að kennaranemar hér á landi fái sífellt minni kennslu í íslensku. „Þetta eru alvarleg tíðindi,“ segir málnefndin.

„Vitanlega hefur framboð á ýmiss konar afþreyingu aukist mikið undanfarin ár og það á sinn þátt í minni lestri barna og unglinga en mikilvægi lestrar hefur þó alls ekki minnkað […] Börn og unglingar lesa mikið á ensku á netinu og í tölvuleikjum. Lestur á móðurmálinu gegnir lykilhlutverki í að auka mótstöðuafl íslenskrar tungu gagnvart áhrifum annarra tungumála,“ segir jafnframt í ályktuninni.

Nefndin leggur einnig til að móðurmálskennsla í grunnskólum verði aukin, íslenska verði ríkur þáttur í kjarna í kennaranámi og að rekstur skólabókasafna verði treystur. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×