Innlent

Lögreglan varar við tveim meintum þjófum

Þjófarnir ásælast einkum skartgripi og fjármuni.
Þjófarnir ásælast einkum skartgripi og fjármuni.
Undanfarna daga hefur verið töluvert um innbrot í heimahús á höfuðborgarsvæðinu og varar lögreglan fólk við vegna þessa. Flest innbrotin eru í sérbýli sem staðsett eru við jaðar byggðar og eru þau dreifð um höfuðborgarsvæðið.

Sést hefur til tveggja karlmanna nálægt innbrotsstað, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, sem hugsanlega eru taldir tengjast málinu. Þeir ganga í hús og bera upp ýmis erindi, að því er virðist til að kanna hvort fólk sé heima við.

Öðrum mannanna er lýst sem 180 til 185 cm háum, dökkum yfirlitum en þó ljósum á hörund, dökkhærðum með skallablett. Hann er talinn vera um það bil 35 ára. Hann var í svartri dúnúlpu með hvítum stöfum aftan á.

Hinn maðurinn er 20 til 25 ára, grannvaxinn og dökkklæddur. Hugsanlegt er talið að mennirnir séu á rauðri bifreið. Mörg innbrotanna hafa verið framin á tímabilinu frá klukkan 17 til 22 þegar heimilisfólk hefur brugðið sér frá.

Þjófarnir fara gjarnan inn um glugga eða svalahurðir á svefnherbergjum og virðist það ekki hafa fælandi áhrif á þá að heimili séu tengd öryggisþjónustu. Þeir eru snöggir og ásælast einkum skartgripi, fé og aðra muni sem auðvelt að er grípa með sér.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að vera á varðbergi og koma til lögreglu upplýsingum um grunsamlegar mannaferðir í síma 444-1000.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×