Lífið

Hljóðrituðu bestu lögin aftur

Aðdáendur Papa geta farið að undirbúa sig undir það að Matti, oftast kenndur við Papa, verði bara Matti eða Matti Matt.
Fréttablaðið/Valli
Aðdáendur Papa geta farið að undirbúa sig undir það að Matti, oftast kenndur við Papa, verði bara Matti eða Matti Matt. Fréttablaðið/Valli
„Við ákváðum að fara þessa leið til að samræma hljóminn, Paparnir hljóma allt öðruvísi í dag en þeir gerðu fyrir nokkrum árum,“ segir Matthías Matthíasson, oftast kallaður Matti eða Matti í Pöpunum.

Hljómsveitin Papar gefur út svokallað „best off“-safn um mánaðarmótin sem telst vart til sérstakra tíðinda nema ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hljómsveitin fór í hljóðver og tók bestu lögin upp á ný. „Við hlustuðum á lögin og áttuðum okkur á því að það væri svolítið erfitt að gefa fólki heildarmynd af Pöpunum þannig að við gerðum þetta bara á þennan hátt og fáum fullt af góðum gestum með okkur.“

Fyrir tveimur árum spratt upp sérkennileg deila þegar tveir af stofnmeðlimum Papa töldu sig geta endurstofnað hljómsveitina og hófu að spila undir merkjum sveitarinnar. Núverandi meðlimir hljómsveitarinnar sættu sig ekki við þetta og fengu lögbann á nafnið og var endurvakta sveitin að lokum skírð Hrafnar. Matti þvertekur fyrir að sú deila snerti eitthvað þá ákvörðun að þeir fóru í hljóðver á ný. „Það hefur aldrei verið neitt vandamál með útgefna efnið okkar, það hefur verið bara verið í höndunum á útgáfufyrirtækjunum.“

Það telst hins vegar til tíðinda að Bergsveinn Árelíusson, sem eitt sinn var söngvari Sóldaggar, syngur meir en helming laganna á safndisknum, hann og Matti skipta því með sér verkum. Matti viðurkennir að breytingar séu í nánd. „Við erum kannski að undirbúa fólk undir það að ég verði minna með Pöpunum og að maður verði meira bara Matti Matt en Matti í Pöpunum. Það er farið að bitna á hljómsveitinni hvað ég hef mikið að gera á öðrum sviðum og Beggi þekkir þetta eins og lófann á sér.“ -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.