Innlent

Kirkjukórar hætta að syngja vegna þreytu

Í apríl 1998 var engin mannekla í kirkjukór Hvalsneskirkju. Síðasta karlsöngvarinn hætti hins vegar 2004 og konurnar sem nú voru eftir orka ekki meir. Myndir/Reynir Sveinsson
Í apríl 1998 var engin mannekla í kirkjukór Hvalsneskirkju. Síðasta karlsöngvarinn hætti hins vegar 2004 og konurnar sem nú voru eftir orka ekki meir. Myndir/Reynir Sveinsson
„Þetta var orðin kvöð og við eiginlega gáfumst bara upp," segir Margrét Böðvarsdóttir, formaður kirkjukórs Hvalsnessóknar sem nú er hættur að syngja við guðsþjónustur í Sandgerði.

Kirkjukórinn í Útskálasókn í Garði hætti líka á sama tíma. Margrét segir ástæðurnar nokkrar. Fyrst og fremst hafi þó ráðið mannekla og að meðlimir kóranna hafi verið orðnir langþreyttir. Síðasti fasti karlsöngvarinn í Hvalsneskórnum hafi hætt 2004 og þar séu aðeins níu konur eftir, sem flestar séu um fimmtugt og yfir sjötugt. Þegar best lét hafi verið 25 manns í kórnum, þar af fimm karlar. Í Útskálasókn sé svipuð staða þótt þar sé einn karl í kórnum. Ekkert hafi gengið að fá nýja meðlimi í kórana enda kæri sig fæstir um þá bindingu sem felist í því að syngja í messu aðra hverja helgi og við aðrar athafnir.

„Kórstjórinn hefur þurft að vera að snapa saman körlum, hann reddaði þeim oftast nær úr Keflavík," segir Margrét, sem segir kórana tvo hafa hjálpast að og meðal annars verið með sameiginlegan kór fyrir jarðarfarir.

Margrét játar að það hafi verið mikil viðbrigði þegar kórinn hætti í október. Sjálf hafi hún verið í tuttugu ár í kórnum og sumar miklu lengur. „Jólin verða skrítin en maður fer þó auðvitað í messu," segir Margrét, sem kveður jóla- og aðventusálmanna einmitt hafa verið sitt uppáhald.

Margrét segist vonast til að eitthvað rætist úr söngmálum í Hvalsnessókn. „Vonandi vekur þetta einhvern til umhugsunar. Ef fleira fólk hefði komið í kórinn hefðum við flestar haldið áfram. Vonandi gerist það. Það er ekki öll nótt úti enn," segir hún vongóð.

Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsneskirkju, segir málið meðal annars tengjast ört minnkandi tekjum sóknanna tveggja. Ekki aðeins sé kórinn í Hvalsnessókn hættur heldur hafi verið nauðsynlegt að segja organistanum upp. Þó sé ekki fokið í öll skjól fyrir söngelska Sandgerðinga þótt bæði organistinn og kórinn séu á braut. „Við erum með mjög fjölhæfan prest sem getur tekið í gítar í hvaða athöfn sem er." Séra Sigurður Grétar Sigurðsson er sameiginlegur prestur fyrir sóknirnar tvær.

Tónlistarmálin í sóknunum tveimur eru ekki útrædd. Til dæmis verður málið á dagskrá almenns safnaðarfundar í Útskálakirkju í kvöld. „Hvað viljum við sjá? Kirkjukór, hljómsveit, einsöngvara, almennan söng, engan söng, allt þetta, ekkert af þessu?" er spurt í fundarboði.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×