Innlent

Segjast dafna betur og basla minna

Miklu fleiri Íslendingar segjast nú dafna og miklu færri vera í basli en fyrir ári. Þetta kemur fram í könnun Capacent sem ætlað að varpa ljósi á líðan íslensku þjóðarinnar.

Niðurstöðurnar eru birtar í tímariti Capacent, Straumum. Þátttakendum í könnunninni er skipt í þrjá hópa. Í fyrsta hópnum eru þeir sem „dafna", það er fólk sem metur líf sitt gott í augnablikinu og sér fyrir sér að það verði jafn gott eða betra eftir fimm ár. Í næsta hópi eru þeir sem eru „í basli"; telja stöðu sína annað hvort ekki góða í augnablikinu eða er svartsýnt á stöðuna eftir fimm ár.

Þriðji hópurinn er fólk í „þrengingum"; það gefur lífi sínu í dag lága einkunn og sjá ekki fram á betri tíma eftir fimm ár.

Miðað við sams konar mælingu um miðjan október í fyrra hefur þeim sem Capacent segir „dafna" og setur í fyrsta flokk fjölgað úr 43,5 prósentum í 65,4 prósent. Það er hæsta gildið síðan þessar mælingar hófust á fyrra hluta síðasta árs. Þeim sem teljast vera í basli hefur að sama skapi fækkað mjög mikið, úr 53,2 prósentum í 32,3 prósent. Í síðasta flokkinn setur Capacent nú 2,3 prósent, sem er nálægt því gildi sem mælst hefur að meðaltali.

Capacent segir að þótt þróunin sé jákvæð séu mælingarnar sveiflukenndar. „Mat Íslendinga á lífi sínu virðist vera nokkuð brothætt og verða fyrir áhrifum af atburðum í umhverfinu," segir Capacent. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×