Erlent

Gosið er enn í fullum gangi

Íbúar skelkaðir Páll segir að íbúar á eyjunni El Hierro séu óvanir gosum, enda hefur ekki gosið á þessu svæði síðan 1971. Fréttablaðið/AP
Íbúar skelkaðir Páll segir að íbúar á eyjunni El Hierro séu óvanir gosum, enda hefur ekki gosið á þessu svæði síðan 1971. Fréttablaðið/AP
Gosið á hafsbotni við Kanaríeyjar er enn í fullum gangi, andstætt því sem kom fram í frétt blaðsins í gær.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að gosið sé nokkuð merkilegt.

„Það er nokkuð breytilegt frá degi til dags hversu mikið sést til gossins. Um daginn var nokkuð um að sprengingar rufu hafflötinn og hentu upp gosefnum nokkra metra. Annars kemur þetta mest fram sem dökkur blettur og loftbólur.“

Nokkuð var um vangaveltur þess efnis að ný eyja gæti risið þar úr sæ, en Páll efast um það.

„Eldstöðin er á talsverðu dýpi, um 400 metrum upphaflega, og í talsverðum bratta. Það er aðdjúpt þarna og því ekki víst að eyja yrði langlíf á þessum stað, þó hún næði að myndast.“

Páll bætir því við að nokkur kurr sé meðal íbúa sem séu ekki vanir slíku, en helst sé óttast að gas geti valdið usla. Því hafi verið gripið til talsverðra varúðarráðstafana.

„Það er bær á ströndinni og hafa íbúar þar verið fluttir á brott nokkrum sinnum, einkum ef óvissa hefur skapast um atburðarásina,“ segir Páll að lokum. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×