Lífið

Fúlar út í fárveika Rihönnu

Kolbrún Sif Hjartardóttir og vinkona hennar Rakel Edda Bjarnadóttir voru sestar í Globen tónleikahöllina í Stokkhólmi til að sjá Rihönnu á miðvikudagskvöldið þegar þeim var tilkynnt að tónleikunum hefði verið frestað vegna veikinda söngkonunnar.
Kolbrún Sif Hjartardóttir og vinkona hennar Rakel Edda Bjarnadóttir voru sestar í Globen tónleikahöllina í Stokkhólmi til að sjá Rihönnu á miðvikudagskvöldið þegar þeim var tilkynnt að tónleikunum hefði verið frestað vegna veikinda söngkonunnar.
„Við vorum sestar í sætin okkar og byrjaðar á fyrsta bjórnum þegar það kom maður fram á sviðið og tilkynnti okkur að hætt hefði verið við tónleikana,“ segir Kolbrún Sif Hjartardóttir, sem var ein af 20 þúsund sviknum aðdáendum tónlistarkonunnar Rihönnu í Stokkhólmi á miðvikudagskvöldið.

Kolbrún Sif býr í Lundi, þar sem hún er í skiptinámi, og lagði á sig fjögurra tíma lestarferð til Stokkhólms til að hitta vinkonur sínar og sjá stórstjörnuna Rihönnu troða upp.

Tónleikunum var frestað á síðustu stundu vegna veikinda söngkonunnar.

„Við vorum mjög spenntar að sjá hana og það er langt síðan við skipulögðum þessa ferð, svo þetta er ótrúlega svekkjandi. Svo komu nokkrar vinkonur mínar sérstaklega frá Íslandi til að sjá Rihönnu og þær eru náttúrulega alveg brjálaðar.“

Kolbrún segir að þær hafi verið með smá fyrirvara á tónleikum og því verið duglegar að fylgjast með fréttum af heilsufari söngkonunnar á tónleikadaginn.

„Við vorum fyrst að vona að karlinn á sviðinu væri að plata en þegar byrjað var að rífa niður sviðsmyndina fór þetta ekki á milli mála. Við skelltum okkur bara beint á barinn til að bæta þetta upp en það voru margir tónleikagestir grátandi.“

Miðaverðið á tónleikana var frá sex þúsund íslenskum krónum upp í 20 þúsund og býðst tónleikagestum að fá það endurgreitt. „Það var eitthvað verið að tala um að hún ætlaði að halda aukatónleika en það er ekkert grín að safna saman 20 þúsund manns aftur. Ætli maður skili ekki bara miðanum og fái endurgreitt.“

Spurð hvort hún ætli að elta söngkonuna í Evrópuferðalaginu og sjá hana troða upp annars staðar á meginlandinu svarar Kolbrún hlæjandi: „Nei, ég er eiginlega hálffúl út í hana og við erum ekki vinkonur í augnablikinu.“- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.