Innlent

Katla er framúrskarandi jarðvangur

Jarðvangurinn Katla tekur til sveitarfélaganna þriggja: Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Fréttablaðið/gva
Jarðvangurinn Katla tekur til sveitarfélaganna þriggja: Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Fréttablaðið/gva
Náttúra Kötlu hefur verið bætt á lista Sameinuðu þjóðanna yfir framúrskarandi jarðvanga í heiminum. UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, barst sextán umsóknir um sæti á listanum og samþykkti níu þeirra. Nú eru 87 staðir í 27 löndum á listanum.

Í frétt um málið á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna segir að jarðvangurinn Katla hýsi hinn víðfræga Eyjafjallajökul, sem hafi sett flugumferð á annan endann í fyrra. Kötlusvæðið er sagt einkennast af jökulsorfnu landslagi og eldvirkni sem hafi áhrif á búsetu og þar gegni vistvæn ferðamennska lykilhlutverki.

Staðir sem veljast á listann eru taldir búa yfir einstöku mikilvægi í mennta- og vísindalegu tilliti, eru einstakir í sinni röð eða búa yfir sérstakri náttúrufegurð. Hinir átta staðirnir sem komust á listann í þetta sinn voru Muroto-jarðvangurinn í Japan, Burren og Moher-klettar á Írlandi, Bauges-garðurinn í frönsku Ölpunum, Apuen-svæðið í ítölsku Ölpunum, þjóðgarðurinn Sierra Norte di Sevilla í Andalúsíu og jarðvangurinn Villuercas Ibores Jara á Spáni og kínversku jarðvangarnir í Tianzhushan og Hong Kong.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×