Innlent

Hægt að spara mikið með skipum úr trefjaplasti

Um 500 fyrirtæki frá 34 löndum taka þátt í sýningunni í Smáranum.
Fréttablaðið/vilhelm
Um 500 fyrirtæki frá 34 löndum taka þátt í sýningunni í Smáranum. Fréttablaðið/vilhelm
Íslenskar útgerðir gætu sparað stórfé í eldsneytis- og viðhaldskostnað með því að smíða skip sín úr trefjaplasti í stað stáls. Þetta segir Andri Þór Gunnarsson hjá fyrirtækinu Infuse, sem ásamt fyrirtækinu Ausus framleiðir efni í trefjabáta. Fyrirtækin eru meðal þeirra sem kynna hugmyndir sínar á Sjávarútvegssýningunni í Smáranum um þessar mundir.

„Sjávarútvegurinn mundi hagnast mikið á því að fara að byggja stóru skipin alfarið úr trefjaplasti,“ segir Andri. „Það hefur sýnt sig í ótal rannsóknum að þau eru miklu eyðslugrennri, og þess vegna miklu betri fyrir umhverfið, og tærast náttúrulega ekki neitt.“ Þá séu þau betur einangruð sem geri það að verkum að þurrara og notalegra er um borð. Reynsla af dönsku trefjaplastsherskipi sýni að viðhaldskostnaður sé 80 prósentum lægri.

Andri segir að kostnaðurinn við smíðina sé um fimmtungi hærri en það borgi sig upp á þremur til fjórum árum.

Andri nefnir dæmi af Íslendingum sem hafi skipt fjögurra tonna stýrishúsi á bát sínum út fyrir annað úr trefjaplasti sem er þrjátíu fermetrum stærra en vó innan við 1.700 kíló. Þá sé fyrirtækið Seigla á Akureyri að byggja heilt skip úr trefjaplasti.

Infuse og Ausus eru einnig með til kynningar á sýningunni fjölnota bát með einingum í skutnum sem hægt er að skipta út og breyta þannig bátnum á stundarfjórðungi, til dæmis úr rækjuveiðibát í farþegaferju eða rannsóknarskip.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×