Innlent

Aðskilnaður síamssystra heppnaðist

Rital og Ritag virðast ekki hafa hlotið eins mikinn taugaskaða og hætta var talin á. nordicphotos/AFp
Rital og Ritag virðast ekki hafa hlotið eins mikinn taugaskaða og hætta var talin á. nordicphotos/AFp
Tvíburasysturnar Rital og Ritag Gaboura, sem fæddust samvaxnar á höfði í september í fyrra, voru aðskildar af hópi breskra lækna í London í síðasta mánuði.

Samkvæmt frétt BBC virðast stúlkurnar ekki hafa hlotið varanlegan taugaskaða eins og mikil hætta var á, en einungis einn af hverjum tíu milljónum sem fæðast með þennan sjúkdóm lifir af. Þó segja læknar að erfitt sé að staðfesta það fyrr en systurnar eldast.

Rital og Ritag fæddust í Kartúm í Súdan og sáu góðgerðarsamtökin Facing the World um flutning þeirra til London. Vegna sjúkdómsins flæddi töluvert af blóði milli heila systranna. Því var aðgerðin, sem fram fór á Great Ormond Street-barnaspítalanum, lífsnauðsynleg.

Afar sjaldgæft er að tvíburar fæðist samvaxnir og aðeins um fimm prósent þeirra eru samvaxnir á höfði. Foreldrar systranna, sem báðir eru læknar, sögðust afar þakklátir fyrir að geta snúið aftur til síns heima með stúlkurnar aðskildar og heilbrigðar.

„Við erum mjög þakklát Facing the World-samtökunum, sem borguðu fyrir aðgerðina, og læknunum sem unnu í sjálfboðavinnu. Við vitum um fleiri börn sem þarfnast slíkrar hjálpar og eru að leita að hjálp,“ sögðu foreldrarnir.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×