Innlent

Tuttugu ný lög á einum degi

Þingmenn tókust hart á um ýmis mál og brigsluðu stjórnarliðar stjórnarandstæðingum um málþóf. 
fréttablaðið/anton
Þingmenn tókust hart á um ýmis mál og brigsluðu stjórnarliðar stjórnarandstæðingum um málþóf. fréttablaðið/anton
Þingmenn höfðu í nógu að snúast á laugardag, en samkomulag náðist um að ljúka þinghaldi þann dag. Alls urðu tuttugu mál að lögum á þessum síðasta degi þingsins. Ríkisstjórnin kom þó ekki öllum málum sínum gegnum þingið.

Meðal laga sem samþykkt voru á laugardag má nefna lög um gjaldeyrishöft, en stjórnin hafði gefið nokkuð eftir í því máli. Höftin voru framlengd til tveggja ára en ekki fjögurra eins og ríkisstjórnin hafði fyrirhugað. Þá verður vald til að ákvarða fjölda ráðuneyta áfram í höndum þingsins, en færist ekki til forsætisráðherra líkt og frumvarp hafði gert ráð fyrir.

Heildarlög voru samþykkt fyrir Þjóðminjasafn Íslands og Landsbókasafn - Háskólabókasafn, auk nýrra safnalaga. Þá var Árósarsamningurinn fullgiltur, en fimm ár eru síðan umhverfisráðherra skipaði starfshóp um fullgildingu hans. Nokkuð hefur verið gagnrýnt að réttur til að kæra stjórnvaldsákvarðanir til Úrskurðarnefndar er bundinn þeim sem eiga lögvarða hagsmuni í málinu.

Þá var samþykkt heimild til Íbúðalánasjóðs um að bjóða upp á óverðtryggð lán og virðisaukaskattur á rafbækur var lækkaður niður í sjö prósent.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×