Innlent

Leikskólar í Reykjavík munu skerða þjónustu

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir
Ragnhildur Erla Bjarnadóttir
Leikskólum Reykjavíkurborgar verður ekki lokað þó að leikskólakennarar sem eru í Félagi leikskólakennara (FL) fari í verkfall næsta mánudag, segir Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri leikskólasviðs borgarinnar. Öllum leikskólum á vegum Akureyrarbæjar mun hins vegar verða lokað.

Í gær lauk árangurslausum sáttafundi í kjaradeilu sveitarfélaga og leikskólakennara, án þess að boðað væri til annars fundar hjá sáttasemjara.

Leikskólasvið Reykjavíkurborgar vinnur nú að viðbragðsáætlun, þar sem skoðað er hve mikil röskun verður hjá leikskólum borgarinnar og hvernig brugðist verður við því.

Leikskólastjórnendur hafa fengið viðmiðunarreglur til að hafa til hliðsjónar ef til verkfalls kemur. Þar kemur meðal annars fram að ef deildarstjórar leikskóla eru ekki í Félagi leikskólakennara (FL) má viðkomandi deild taka við börnum sem skráð eru þangað, en ekki af öðrum deildum. Algengast er að aðstoðarleikskólastjórar í Reykjavík starfi einnig sem deildarstjórar og munu þeir því halda áfram að taka á móti leyfilegum fjölda barna er miðast við útreikninga á fjölda barna á hvern starfsmann. Þá munu ófaglærðir starfsmenn leikskóla, sem ekki eru í FL, einnig mæta áfram til vinnu ef til verkfalls kemur.

Á Akureyri eru hins vegar allir starfandi deildarstjórar félagar í FL og því er séð fram á að allir leikskólar munu lokast í verkfallinu.

Sigríður Ósk Jónasdóttir, leikskólastjóri á Flúðum á Akureyri, segir útlitið ekki bjart þar.

„Allir skólar loka. Allir deildarstjórar hér eru í FL og því geta þær deildir ekki haldist opnar," segir hún. Sigríður bætir við að fyrirspurnum foreldra hafi fjölgað í gær, en hún telur þó að almennt sýni þeir kennurum skilning í kjarabaráttu sinni.

- kóþ, sv



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×