Lífið

Skálaði með Kate Moss

Nick Knowles, Mick Hutson og Hörður Ellert Ólafsson við þyrluna sem flaug með félagana yfir Glastonbury.
Nick Knowles, Mick Hutson og Hörður Ellert Ólafsson við þyrluna sem flaug með félagana yfir Glastonbury.
Skál! Kate Moss gisti á glæsilegu óðalssetri á meðan Glastonbury-hátíðinni stóð yfir.
„Það var ótrúlegt ævintýri að skála með Kate Moss og ferðast með þyrlu um tónleikasvæðið rúmlega hálftíma seinna,“ segir ljósmyndarinn Hörður Ellert Ólafsson, um einstaka upplifun sína af tónlistarhátíðinni Glastonbury í júní.

Nick Knowles, fyrrverandi markaðsstjóri tónlistartímaritsins Q, var fenginn til að sjá um skrifstofu tímaritsins á hátíðinni og fékk ýmis fríðindi, t.d boðsmiða handa einum besta vini sínum Herði, en þeir kynntust þegar Nick bjó á Íslandi.

Á hátíðinni gistu félagarnir í hjólhýsi líkt og allt fræga fólkið. Barinn Lulu’s var nálægt svæðinu sem þeir gistu á, en Hörður mætti þar Bono, söngvara U2, einn daginn þar sem hann var að fá sér morgunmat.

Fyrrnefnd Kate Moss gisti þó ekki í hjólhýsi heldur á óðalssetri fyrir utan tónleikasvæðið. Hörður keyrði þangað einn daginn ásamt Nick og einum áhrifamesta ljósmyndara heims á sviði tónlistar, Mick Hutson. Forríkir gestir hátíðarinnar gista á óðalssetrinu og borga rúmlega milljón fyrir þrjár nætur. Hörður segir að þarna hafi hann séð hversu mikil stéttaskipting er í Englandi — hún ríki meira að segja á tónlistarhátíð.

Á óðalssetrinu skáluðu félagarnir í hvítvíni með fólki á borð við Wayne Rooney og Kate Moss. En fyrirsætan kom upp að Herði og spurði hvaðan hann væri, eflaust eftir að hafa heyrt hann tala íslensku í gríni. Á óðalssetrinu var þyrlupallur með fimm þyrlum og skömmu síðar voru þeir komnir í yfirlitsferð um svæðið.

Hátíðin var mikil upplifun fyrir Hörð sem ljósmyndara en hann fékk að vera meðal þrjátíu ljósmyndara af þrjúhundruð til að taka myndir fremst á tónleikum Queens of the Stone Age, með hundrað þúsund æsta áhorfendur á bakvið sig.

„Gestir Glastonbury voru um 220 þúsund í ár svo þetta er eins og rúmlega allt Stór-Reykjavíkursvæðið fari saman í útilegu í Galtalæk yfir eina helgi,“ segir Hörður og bætir við að Glastonbury verði ekki á næsta ári því grasið og gróðurinn fái að jafna sig fimmta hvert ár.

hallfridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.