Innlent

Fólksflótti mun valda skorti á vinnandi fólki

Tímamót Ramunas Bogdanas kom hingað til lands fyrir rúmum 20 árum til að leita eftir stuðningi Íslendinga við sjálfstæði Litháen. fréttablaðið/hag
Tímamót Ramunas Bogdanas kom hingað til lands fyrir rúmum 20 árum til að leita eftir stuðningi Íslendinga við sjálfstæði Litháen. fréttablaðið/hag
„Íslendingar eru dáðir í Litháen,“ segir Ramunas Bogdanas sem var nánasti aðstoðarmaður Landsbergis, fyrsta forseta Litháens, eftir að lýst var yfir sjálfstæði þar í landi árið 1990.

Eystrasaltslöndin þrjú halda upp á tuttugu ára viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á sjálfstæði þeirra á þessu ári, en Eistland og Lettland fengu sjálfstæði árið 1991. Ísland var fyrsta landið sem viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltslandanna.

Bogdanas var fyrsti Litháinn sem kom til Íslands til að leita eftir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Litháa árið 1990. „Margir Litháar segjast hafa búist við öðruvísi Litháen eftir sjálfstæðið,“ segir Bogdanas en bætir við að séu þeir inntir eftir hverju þeir bjuggust við verði oft fátt um svör. „Kannski var það paradís.“

Litháar hafa að sögn Bogdanas fundið fyrir kreppunni á undanförnum árum. „Bankarnir voru útlánaglaðir. Peningar flæddu inn í landið, aðallega frá Skandinavíu,“ segir Bogdanas en á sama tíma hækkaði fasteignaverð mikið. „Jafnvel þótt fólk selji fasteign sína dugir það ekki fyrir skuldunum. Bólan sprakk og við lentum harkalega.“

Bogdanas segir að stærsta vandamálið sem Litháen glími við í dag sé mikill flutningur fólks úr landi. „Þegar við fengum sjálfstæði bjuggu 3,8 milljónir í landinu en í dag erum við 3,2 milljónir. Það er unga fólkið sem fer, vinnuaflið.“

Að sögn Bogdanas er kreppan í Litháen nú að mestu liðin hjá og er hagvöxtur landsins með því mesta sem mælist í Evrópusambandinu eða 7,5 prósent. „Það þýðir samt að fljótlega mun okkur skorta vinnuafl,“ upplýsir Bogdanas en flestir flytjast til Englands og Írlands. Auðveldara varð fyrir Litháa að flytjast úr landi eftir inngöngu í Evrópusambandið árið 2004, vegna frjáls flæðis vinnuafls. „Það stuðlar samt að ójafnvægi Evrópulanda vegna þess að launin eru lægri í Austur-Evrópu heldur en í vesturhluta álfunnar.“

Aðspurður segir Bogdanas þó að áhrif Evrópusambandsins séu mjög jákvæð. „Við fáum stuðning á ýmsum sviðum, eins og í landbúnaði. Við getum ekki hindrað fólk í að flytja úr landi en það eru til lausnir á því vandamáli. Nú er farið að ræða um að þau lönd sem taka við vinnuafli úr fátækari löndum bæti þeim tjónið sem þau verða fyrir vegna þess að menntað fólk flytur úr landi.“

martaf@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×