Innlent

Bjó um barnið í ruslagámnum

Vegfarandi á Laugavegi skildi eftir blóm, bangsa og kort til minningar um ungabarnið sem lést þar á laugardag. Gjafirnar voru lagðar við inngang Hótel Fróns. Í kortinu stóð: „Allt betra skilið en þetta. Hvíl í friði.“ Hvorki ættingjar né samstarfsfólk móðurinnar vissu að hún bæri barn undir belti. Fréttablaðið/Vilhelm
Vegfarandi á Laugavegi skildi eftir blóm, bangsa og kort til minningar um ungabarnið sem lést þar á laugardag. Gjafirnar voru lagðar við inngang Hótel Fróns. Í kortinu stóð: „Allt betra skilið en þetta. Hvíl í friði.“ Hvorki ættingjar né samstarfsfólk móðurinnar vissu að hún bæri barn undir belti. Fréttablaðið/Vilhelm
Rúmlega tvítug kona hefur verið úrskurðuð í tveggja vikna gæsluvarðhald og til að sæta geðrannsókn eftir að nýfætt barn hennar fannst látið í ruslagámi við vinnustað konunnar á laugardag.

Lögreglumenn fundu lík fullburða sveinbarns konunnar eftir að hún leitaði sér aðstoðar á spítala eftir fæðinguna. Konan er 21 árs gömul og ættuð frá Litháen. Hún starfaði á Hótel Fróni við Laugaveg, og fannst barnið í gámi við hótelið.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er talið að konan hafi fætt barnið á hótelinu á laugardagsmorgun. Það var búið um barnið í gámnum og því komið þannig fyrir að það blasti ekki við sjónum manna.

Konan hringdi í kjölfarið í fyrrverandi unnusta sinn og sagðist vera orðin alvarlega veik. Maðurinn og faðir hans, sem einnig eru frá Litháen, sóttu hana í vinnuna. Konan vildi fara heim en þeir ákváðu í ljósi ástands hennar að fara með hana á bráðamóttöku Landspítalans. Hvorugur mannanna vissi að konan hafði verið með barni.

Á Landspítalanum töldu læknar að konan hefði fætt barn skömmu áður eða á síðasta sólarhring, þrátt fyrir að hún sagðist ekki kannast við að hafa verið ófrísk. Lögreglan var strax látin vita og hafin var leit að barni. Skömmu síðar fannst drengurinn látinn. Talið er að hann hafi fæðst lifandi. Krufning mun leiða dánarorsökina í ljós.

Konan var sett undir eftirlit lögreglu á Landspítalanum í kjölfarið og unnusti hennar fyrrverandi handtekinn. Honum var sleppt eftir skýrslutöku um miðjan dag í gær.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins flutti konan til Íslands í október síðastliðnum. Hún bjó með þáverandi unnusta sínum á heimili föður hans þar til þau slitu samvistum nýverið. Konan hefur starfað á Hótel Fróni sem herbergisþerna í fjóra mánuði og vissi enginn af ástandi hennar þar.

Gísli Úlfarsson, hótelstjóri á Hótel Fróni, segir að stúlkan hafi verið mjög duglegur starfskraftur, brosmild og hress. Engan hafi grunað að hún bæri barn undir belti, hvorki samstarfsmenn hennar né ættingja. „Þetta er mikill harmleikur og áfall fyrir alla,“ segir Gísli. - sv, jss



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×