
Árni sendi djúpsjávarmyndavél niður í holu á sjávarbotni en nokkrar slíkar fundust fyrir nokkrum árum þegar Hafrannsóknastofnun gerði geislamælingakort af fjarðarbotninum. Árni segir að einnig hafi verið krökkt af rækju og nokkuð af fiski í holunni.
Hann telur að um tíu til fimmtán metrar séu frá opi stærstu holunnar og niður að botni hennar sem er tæpum hundrað metrum fyrir neðan yfirborð sjávar.
Þorvaldur Friðriksson skrímslafræðingur, sem var með í ferðinni, segir að tilgangur hennar hafi verið að kanna fyrirbæri á Stapadýpi á fjarðarbotni Geirþjófsfjarðar. Hann hefur safnað skrímslasögum og segir að margar þeirra séu frá svæðinu í námunda við holurnar. Hann telur því líklegt að þar séu heimkynni skrímsla.
Árni segir að afrakstur ferðarinnar renni stoðum undir þá kenningu frekar en að afsanna hana. Meðal skrímslasagna sem til eru úr Arnarfirði er frásögn frá fyrri hluta síðustu aldar af skrímsli sem gekk á land og gerði árás á bæinn Krók sem var æskuheimili Árna Friðrikssonar snemma á síðustu öld.
Árni varð síðar frumkvöðull í fiskifræðum á Íslandi og er skip Hafrannsóknastofnunar nefnt eftir honum. „En það eru ekki allar sögurnar svo gamlar, til dæmis er til tiltölulega nýleg frásögn af skrímsli með rautt fax sem sást þarna í Arnarfirðinum."
Guðrún Helgadóttir, jarðfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir að víðar megi finna svona gíga eða holur við landið. „Almennt er talið að þessi fyrirbæri hafi myndast við einhvers konar útstreymi vökva eða gass, sem getur verið af ýmsum toga," segir hún. „Ein líkleg skýring á holum innfjarðar er gasmyndun vegna rotnandi lífvera." Spurð um kenningu Þorvaldar segir hún: „það er auðvitað mjög skemmtileg skýring."
Það voru Skrímslasetrið á Bíldudal, Jón Þórðarsonar athafnamaður og Arnfirðingafélagið sem stóðu að leiðangrinum.
jse@frettabladid.is