Lífið

Huga að heildinni

Fréttablaðið/Pjetur
Við viljum fá til okkar sem flesta fótboltakrakka, bæði stráka og stelpur, á aldrinum 13 til 17 ára," segir Margrét Lára Viðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu. Hún, ásamt einkaþjálfaranum Silju Úlfarsdóttur, byrjuðu með afreksskóla í Sporthúsinu þann 20. júní. „Mikill hugur er í krökkum í dag. Margir vilja ná langt og verða jafnvel atvinnumenn. Við viljum hjálpa þeim að ná sem lengst," segir hún.

Margrét og Silja hafa unnið náið saman í vetur meðan Margrét hefur verið í fríi frá deildinni sinni vegna meiðsla. „Við náðum vel saman á æfingum og þá kviknaði hugmyndin um að kenna öðrum það sem við vitum," segir Silja og áréttar að það að vera íþróttamaður snúist um svo margt, ekki aðeins fótbolta.

„Allt of oft kenna fótboltaþjálfarar bara knattspyrnu og ég fæ til mín fólk jafnvel úr meistaradeild sem kann ekki að gera armbeygjur og hnébeygjur rétt," segir Silja og segir skorta að hugað sé að heildinni í þjálfun. „Okkar markmið er að kenna krökkunum lyftingar, hlaup og um næringu og hugarfar fyrir utan auðvitað tækniæfingar," segir Silja. Þær stöllur telja enda nauðsynlegt að íþróttamenn læri að gera hlutina rétt nógu snemma til að lenda ekki í meiðslum síðar.

Afreksskóli Margrétar og Silju verður byggður upp sem tveggja vikna námskeið þar sem hver þátttakandi fær fjórar æfingar. „Við verðum með fáa krakka í einu svo hver og einn fær rosalega góða athygli," segir Margrét Lára. Kennslan fer fram í Sporthúsinu í Kópavogi en frekari upplýsinga er að leita þar eða á Facebook undir afreksskóli Margrétar og Silju.

solveig@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.