Lífið

Gunnar stóð við stóru orðin

Gunnar Hansson vann golfmót listamanna sem fram fór á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal. Fréttablaðið/Anton
Gunnar Hansson vann golfmót listamanna sem fram fór á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal. Fréttablaðið/Anton
„Þetta er eitthvað sem þjóðin verður að vita. Ég stóð við stóru orðin," segir Gunnar Hansson leikari.

Eins og Fréttablaðið greindi frá blésu listamenn til golfmóts á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal 2. júní. Gunnar Hansson lýsti því þar yfir að hann hygðist vinna mótið, hann hefði verið svo skelfilega lélegur á þessu sama móti í fyrra. Og viti menn, Gunnar stóð uppi sem sigurvegari. Hann hafnaði í 1.-2. sæti með forgjöf en vann mótið án forgjafar, lék hringinn á 73 höggum og fékk meðal annars sex fugla.

Arnar Jónsson leikari, annar liðtækur kylfingur, hafnaði í 10. sæti, lék hringinn á 85 höggum en í þriðja sæti varð blúskóngurinn Halldór Bragason. Hann lék Bakkakotsvöll á 79 höggum. Gunnar Björn Guðmundsson, Skaupsleikstjórinn góðkunni, átti sæmilegan dag í Mosfellsdalnum og hafnaði í átjánda sæti en hann lék hringinn á 92 höggum.

Spaugstofufélagarnir fyrrverandi, Sigurður Sigurjónsson og Randver Þorláksson, áttu hins vegar ekki góðan dag á golfmótinu því Randver lék á 102 höggum og Sigurður kom inn á 109 höggum. Kjartan Guðjónsson leikari varð síðan þriðji neðsti en hann lék hringinn á 118 höggum. Kjartani til málsbóta má nefna að hann var skráður með 36 í forgjöf.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.