Lífið

Coldplay hafnar ásökunum um að nýja lagið sé stolið

Enn og aftur hefur breska hljómsveitin Coldplay verið sökuð um lagastuld. Í þetta skipti voru Chris Martin og félagar búnir að baktryggja sig, en nýtt lag Coldplay er byggt á lagi frá 1976.

Breska hljómsveitin Coldplay hefur hafnað ásökunum um að nýja lagið, Every Teardrop Is a Waterfall, sé stolið. Talsmaður hljómsveitarinnar hefur staðfest að lagið sé undir áhrifum danssmellsins Ritmo de la Noche, frá árinu 1990, en það er byggt á laginu I Go to Rio frá árinu 1976. Höfundar I Go to Rio, þeir Peter Allen og Adrienne Anderson, eru því skráðir meðhöfundar Every Teardrop Is a Waterfall og fá greidd höfundaréttarlaun samkvæmt því.

Netheimar voru fljótir að bregðast við þegar Coldplay sendi frá sér lagið Every Teardrop Is a Waterfall fyrir helgi. Bloggarar bentu á líkindi lagsins og Ritmo de la Noche eftir hljómsveitina Mystic. Færri vissu að það er byggt á laginu I Go to Rio, en það var var gríðarlega vinsælt í Ástralíu á sínum tíma og listamenn á borð við Peggy Lee, Claude François og Prúðuleikarana tóku upp eigin útgáfur af laginu.

„Allen og Anderson eru skráðir meðhöfundar Every Teardrop Is a Waterfall," sagði talsmaður Coldplay í yfirlýsingu á dögunum. „Chris [Martin, forsprakki Coldplay] samdi lagið eftir að hann sá myndina Biutiful eftir Alejandro González Iñárritu. Í næturklúbbsatriði í myndinni hljómar lagið Ritmo de la Noche í bakgrunni."

Meðlimir Coldplay hafa áður verið sakaðir um að fara frjálslega með höfundarverk annarra. Þegar hljómsveitin sendi frá sér lagið Viva la Vida fyrir þremur árum sakaði bandaríski tónlistarmaðurinn Joe Satriani þá Chris Martin og félaga um að stela lagi sínu If I Could Fly frá árinu 2004. Þrátt fyrir að meðlimir Coldplay hafi sagt að um tilviljun væri að ræða var samið um málið utan dómstóla árið 2009.

Cat Stevens hefur einnig sakað Coldplay um lagastuld og lagahöfundurinn Dan Gallagher hefur sakað hljómsveitina um myndbandsstuld. Hvorugt málanna endaði fyrir dómi.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.