Innlent

Stóra kvótamálið í nefnd fram á haust

Það var sem stífla hefði brostið þegar samkomulag náðist um meðferð frumvarpa um fiskveiðistjórnun. Mælendaskrá tæmdist og önnur mál komust á dagskrá.fréttablaðið/gva
Það var sem stífla hefði brostið þegar samkomulag náðist um meðferð frumvarpa um fiskveiðistjórnun. Mælendaskrá tæmdist og önnur mál komust á dagskrá.fréttablaðið/gva
Samkomulag náðist um það um miðjan dag í gær að stóra kvótafrumvarpið færi til meðferðar sjávarútvegsnefndar. Mælendaskráin tæmdist, en fjölmargir þingmenn, aðallega stjórnarandstöðunnar, höfðu verið á henni og ljóst var að löng umræða var fram undan. Af henni varð ekki og málið fór til nefndar.

Sjávarútvegsnefnd mun hafa málið til umfjöllunar og stefnt er að því að það verði tekið upp síðsumars, komi ekki til sumarþings. Þing kemur saman að nýju 1. til 15. september og þá gefst færi á að taka málið upp aftur. Náist það ekki verður að leggja málið fram að nýju á næsta þingi, sem hefst 1. október.

Frestur gefst til umsagna um frumvarpið og verður tekið tillit til þeirra í starfi nefndarinnar. Sjávarútvegsráðherra getur einnig gert breytingar á frumvarpinu, verði lagt fram nýtt frumvarp í haust.

Litla kvótafrumvarpið hefur verið til umfjöllunar í sjávarútvegsnefnd og eftir eru tvær umræður um málið.

Samkvæmt dagskrá fer Alþingi í sumarfrí á fimmtudag. Samkomulag er um að ræða litla frumvarpið áfram og þeir stjórnarliðar sem Fréttablaðið ræddi við voru enn bjartsýnir á að það næðist að ljúka þingstörfum fyrir helgi. Stjórnarandstæðingar hafa þó ýmislegt við frumvarpið að athuga.

Stjórnin leggur mikla áherslu á að það verði að lögum í síðasta lagi fyrir nýtt kvótaár, sem hefst 1. september. Þá tekur frumvarpið á strandveiðum, sem verða stundaðar í sumar.

Þá stendur eftir spurningin hvort Alþingi komi aftur saman í sumar. Fyrir því virðist ekki mikill stuðningur og er það helst Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sem hefur talað fyrir þeirri leið.

Fleiri mikilvæg mál á eftir að afgreiða, svo sem bandorm um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er meðal annars kveðið á um aðgerðir í kjölfar kjarasamninga. Ekki ríkir sátt um það mál en vonast er til að það klárist fyrir þinglok. Þá á enn eftir að ljúka umræðum um endurfjármögnun bankanna, auk fleiri mikilvægra mála.

Forseti Alþingis hefur lagt ríka áherslu á að starfsáætlun þingsins haldi og svo virðist sem það muni takast í grófum dráttum.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×