Innlent

Tekist á um kvótafrumvarpið á Alþingi

Fyrsta umræða um frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á kvótakerfinu fór fram í gær.
Fyrsta umræða um frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á kvótakerfinu fór fram í gær. Mynd/GVA
 Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra mælti fyrir því minna af tveimur frumvörpum ríkisstjórnarinnar um breytingar á kvótakerfinu á Alþingi í gær. Í kjölfarið fóru fram fjörugar umræður um málið sem stóðu langt fram á kvöld.

 

Jón sagði markmiðið með frumvarpinu vera að tryggja stöðu sjávarbyggðanna enn betur en verið hefði. Þá væri frumvarpið einnig afar þjóðhagslega hagkvæmt.

Stærra frumvarpið verður tekið fyrir á haustþingi en í því minna er kveðið á um breytingar sem falla úr gildi þegar og ef stærra frumvarpið verður að lögum. Meðal breytinga sem það felur í sér eru aukning á byggða- og strandveiðikvóta auk 70 prósenta hækkunar á veiðigjaldi.

 

Stjórnarandstæðingar gagnrýndu frumvarpið harðlega í umræðum í gær. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði viðtökurnar við því alls staðarþær sömu; það væri allsendis ófullnægjandi. Á sömu nótum talaði Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sem gagnrýndi jafnframt vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu.

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist efast um að frumvarpið stæðist stjórnarskrá og vísaði til greinargerðar frá fjármálaráðuneytinu þar sem gerðar eru athugasemdir við fyrirhugaða skiptingu á veiðigjaldi.

 

Þá sagði Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, marga ágalla vera á frumvarpinu og þingið og nefndir þess þyrftu því að fara vel yfir málið.

 

Enn er ósamið um þinglok og því eru afdrif málsins sem og annarra þingmála enn ekki ljós.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×