Erlent

Trúir ekki Obama

Þeir Manuel Barroso, Nicolas Sarkozy, Barack Obama og Naoto Kan þegar hlé varð á fundarhöldum í Deauville í gær.nordicphotos/AFP
Þeir Manuel Barroso, Nicolas Sarkozy, Barack Obama og Naoto Kan þegar hlé varð á fundarhöldum í Deauville í gær.nordicphotos/AFP
„Þeir trúa okkur ekki,“ sagði Mike McFaul, helsti ráðgjafi Baracks Obama Bandaríkjaforseta í málefnum Rússlands. Með þessum orðum dró hann saman það sem á strandar í viðræðum ríkjanna um eldflaugavarnir sem Bandaríkjamenn vilja koma upp í Evrópu.

 

Þeir Barack Obama Bandaríkjaforseti og Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti hittust á leiðtogafundi G8-ríkjanna í Frakklandi í gær. Viðræður þeirra virðast hins vegar ekki hafa skilað neinum árangri, heldur draga fram í dagsljósið gagnkvæmt vantraust ríkjanna, sem enn er mikið þrátt fyrir langvarandi þíðu.

 

Deilurnar snúast einkum um eldflaugavarnarkerfið, sem Bandaríkjamenn ætla að setja upp í áföngum í nokkrum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Kerfið á að vera fullbúið árið 2020, en Rússar telja sér ógnað þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hafi ítrekað reynt að fullvissa þá um að kerfið verði ekki notað gegn þeim.

 

Medvedev sagðist engu að síður sannfærður um að lausn fyndist á deilum þeirra í framtíðinni, en nú væri réttara að beina athyglinni að öðrum knýjandi málum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×