Innlent

Atferlismat sker úr um framhaldið

Dalmatíuhundur sem réðist á bréfbera mun á næstunni gangast undir atferlismat til að skera úr um hvort hann verði svæfður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Dalmatíuhundur sem réðist á bréfbera mun á næstunni gangast undir atferlismat til að skera úr um hvort hann verði svæfður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hundurinn sem réðist á póstburðarkonu í Mosfellsbæ í fyrradag, með þeim afleiðingum að hún féll við og fótbrotnaði, mun gangast undir atferlismat á næstu dögum, en þar verður skorið úr um hvort dýrinu verður lógað.

Hafdís Óskarsdóttir, hundaeftirlitsmaður bæjarins, sagði í samtali við Fréttablaðið málið komið inn á borð til heilbrigðisfulltrúa bæjarins. Hún hafi þó strax í gær farið og kynnt eigendum hundsins næstu skref í málinu.

„Þegar svona gerist verður hundurinn framvegis að vera með munnkörfu utandyra. Í framhaldinu fer hann svo í atferlismat sem sker úr um framhaldið.“

Hafdís segir að komi hundar illa út úr atferlismati séu þeir svæfðir, annars fái þeir að lifa með því skilyrði að þeir séu með munnkörfu utandyra.

Hafdís vill annars hvetja alla hundaeigendur til þess að kynna sér reglur um lausagöngu hunda og fylgja þeim.

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, talsmaður Póstsins, sagði í samtali við Fréttablaðið að bréfberar fyrirtækisins mættu sleppa því að bera út í hús, sé ógnandi hundur framan við húsið. Þá séu námskeið í umgengni við hunda reglulega í boði fyrir bréfbera. - þj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×