Erlent

Yfir 300 þúsund hafa flúið frá Líbíu

Uppreisnarmenn í austanverðu landinu forða sér undan árásum liðsmanna Gaddafís.nordicphotos/AFP
Uppreisnarmenn í austanverðu landinu forða sér undan árásum liðsmanna Gaddafís.nordicphotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti ítrekaði í gær að innrás á landi í Líbíu til að koma Múammar Gaddafí frá völdum kæmi ekki til greina.

Í gær, á fimmta degi loftárása Bandaríkjamanna, Frakka, Breta og fleiri þjóða, hafði engin lausn fengist á innbyrðis ágreiningi árásarríkjanna né heldur á ágreiningi þeirra við önnur ríki um markmið og skipulag aðgerðanna.

Þó er stefnt að því að NATO taki að sér yfirstjórn árásanna á næstu dögum.

Í næstu viku verður haldinn í London fundur fulltrúa frá Bandaríkjunum, Evrópuríkjum, arabaríkjum og Afríkuríkjum, þar sem rætt verður um ástandið í Líbíu og aðgerðir Vesturlanda. Tilgangurinn er að reyna að skapa samstöðu um aðgerðirnar.

Árásirnar hafa verið gagnrýndar fyrir að hafa kostað almenna borgara lífið, en varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna bar það til baka í gær og sagði engar sannanir fyrir því.

Í gær voru harðar árásir gerðar á borgina Misrata í vesturhluta landsins, skammt frá höfuðborginni Trípolí, þar sem Múammar Gaddafí er með höfuðstöðvar. Svo virtist sem árásirnar hefðu veikt herlið Gaddafís í Misrata verulega.

Meira en 300 þúsund manns hafa flúið frá Líbíu síðan átök hófust þar milli uppreisnarmanna og liðsmanna stjórnar Gaddafís.

„Ég hef miklar áhyggjur af áhrifum átakanna á almenning,“ sagði Rashid Khalikov, sem sér um skipulagningu hjálparstarfs á vegum Sameinuðu þjóðanna í Líbíu. Hann heimsótti Líbíu dagana 12. til 16. mars og sá miklar skemmdir á íbúðarhúsnæði, meðal annars í bænum Zawiya í vesturhluta landsins.

Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað allt erlent starfsfólk sitt frá Líbíu og hafa hikað við að biðja innlent starfsfólk sitt um að ferðast um landið.

„Við erum ekki viss um að það sé óhætt fyrir það að gera nokkurn skapaðan hlut,“ sagði Khalikov.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×