Innlent

Tafir á málsmeðferð ráðuneytis - þrjú ár að afgreiða umsókn

Álit umboðsmanns hefur ekki verið tekið til skoðunar.
Álit umboðsmanns hefur ekki verið tekið til skoðunar.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið var þrjú ár og átta mánuði að afgreiða umsókn íslensks fyrirtækis um leyfi til að flytja inn fersk egg frá Svíþjóð. Þetta kemur fram í nýju áliti frá umboðsmanni Alþingis þar sem verulegar athugasemdir eru gerðar við þann tíma sem það tók að afgreiða umsóknina.

Þetta er í annað sinn sem umboðsmaður Alþingis fjallar um afgreiðslu ráðuneytisins á þessari umsókn. Í áliti sem gefið var 17. nóvember 2010 var komist að þeirri niðurstöðu að tafirnar á afgreiðslu málsins samrýmdust ekki málshraðareglu stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir það liðu ellefu mánuðir frá því að álitið var gefið út þar til leyfið var veitt. Þar af liðu rúmlega fjórir og hálfur mánuður frá því að umsögn yfirdýralæknis Matvælastofnunar, þar sem lagt var til að innflutningurinn yrði heimilaður, lá fyrir.

Það var því mat umboðsmanns að heildartafir á afgreiðslu málsins gætu ekki talist eðlilegar miðað við efni málsins, málshraðareglu stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti. Því er beint til ráðuneytisins að gerðar verði úrbætur til að hraða afgreiðslu mála. Álitið hafði ekki verið tekið til skoðunar innan ráðuneytisins síðdegis í gær. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×