Innlent

Vilja hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi

Miðstjórn Bandalags háskólamanna skorar á stjórnvöld að lagfæra réttindi foreldra í fæðingarorlofi með því að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.  Í ályktun miðstjórnar segir að árið 2011 hafi aðhaldsaðgerðir stjórnvalda skilað sparnaði upp á  1,2 milljarða umfram áætlanir og því sé svigrúm til að draga til baka skerðingar á réttindum.

„Hámarksgreiðslur til foreldra hafa þrívegis verið lækkaðar í sparnaðarskyni frá árinu 2008, alls um 235.700 krónur, auk þess sem sérstökum skerðingum hefur verið beint að fólki með hærri mánaðarlaun en 200 þúsund krónur,“ segir ennfremur. „Núverandi hámarksgreiðsla, sem nemur 300 þúsund krónum, hefur þegar haft neikvæð áhrif á jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði á þann hátt að feður nýta sér síður réttindi til töku fæðingarorlofs.  Slík afturför í jafnréttismálum er óásættanleg og við henni ber að bregðast án tafar.“

Þá segir að stjórnvöld hafi ítrekað lýst yfir ásetningi um að hlífa fjölskyldum ungra barna við áhrifum niðurskurðar ríkisútgjalda og stuðla að jafnrétti í samfélaginu. „Slíkar yfirlýsingar eru innantómar ef umframsparnaður í fæðingarorlofsgreiðslum upp á rúman milljarð er ekki nýttur til að leiðrétta kjör nýbakaðra foreldra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×