Erlent

Þrumufótur sparkar fast - ný risaeðlutegund finnst

Davíð R. Gunnarsson skrifar
Þrumufóturinn er af graseðlutegund, svipaðri þeirri sem hér sést.
Þrumufóturinn er af graseðlutegund, svipaðri þeirri sem hér sést.
Vísindamen hafa uppgötvað nýja tegund af risaeðlu sem þeir nefna Þrumufót vegna þess hversu kröftuga lærvöðva þeir telja að hún hafi haft. Steingervingur af risaeðlunni sem fannst í námu í Utah var brotakenndur en þó nógu heillegur til að rannsakendur gætu séð að skepnan bjó yfir óvenju öflugum fótabúnaði.

Nýja tegundin, sem lýst er í Acta Palaeontologica Polonica tímaritinu, er graseðla en þær eru með langan háls og hala og voru áberandi á júratímanum.

Tveir steingervingar af þrumufætinum hafa fundist en þeir eru taldir vera um 110 milljón ára gamlir og mögulega af móður og afkvæmi. Fullvaxið hefur dýrið líklega verið um 6 tonn á þyngd og 14 metrar á lengd. Það sem vakti athygli vísindamanna var hins vegar stærð og lögun mjaðmabeinsins sem benti til sterkra lærvöðva.





Mjaðmarbein risaeðlunnar gaf til kynna sterkbyggða fætur.
„Ef að rándýr væru á eftir Þrumufætinum gæti hann einfaldlega sparkað þeim í burtu," segir Mike Taylor, Doktor frá University College London, í viðtali við BBC.

Samkvæmt Taylor er mögulegt að skepnan hafi hafst við í hrjóstugu fjalllendi og aflmiklir leggir hafi nýst sem nokkurs konar fjórhjóladrif fyrir þessa áður óþekktu risaeðlutegund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×